Karfa 0

Hvernig skipta á um rafhlöðu í Game Boy leik

Við fáum reglulega fyrirspurnir um hvort við getum skipt um rafhlöður í gömlum Game Boy leikjum sem eru hættir að vista. Við getum það að sjálfsögðu enda er það tiltölulega auðveld aðgerð sem flestir ættu að geta framkvæmt sjálfir með góðum leiðbeiningum og stöðugum höndum. Þannig í von um að geta hjálpað einhverjum þarna úti sem á gamlan Pokémon leik eða Super Mario Land sem er hættur að vista þá höfum við sett saman smá leiðbeiningar með myndum sem sýna hvernig skipt er um rafhlöðuna til að geta vistað á ný.

Verkfærin sem þarf til

Það sem þú þarft að vera með við hendina til að skipta um rafhlöðuna eru eftirfarandi hlutir:

  • Ný rafhlaða (döh). Innbyggða Lithium rafhlaðan í Game Boy leikjum er af stærðinni CR2025, en við notum CR2032 þar sem hún skorðast betur af inní leiknum og því ólíklegri til að missa samband. 
  • Beittur dúkahnífur.
  • Smá lengja af rafmagnslímbandi.
  • 3,8mm öryggisskrúfbiti (og skrúfjárn til að setja hann á).

Skref 1

Taktu leikinn sem þarf að skipta um rafhlöðuna í og settu hann á borð með bakhliðina vísandi upp. Aftan á leiknum er ein skrúfa sem heldur leiknum saman. Notaðu 3,8mm öryggisbitann til að fjarlægja skrúfuna.

Skref 2

Þegar skrúfan er laus þá getur þú rennt framhliðinni niður um tæpan sentimeter og þá losnar plastskelin í sundur. Taktu skelina í sundur.

Skref 3

Nú sérðu leikinn í allri sinni nöktu dýrð. Í efra hægra horni leiksins sérðu rafhlöðuna.

Skref 4

Taktu móðurborðið úr plastskelinni og settu það á flatt yfirborð og virtu það aðeins fyrir þér. Móðurborð leikja eru oft mismunandi og því gæti verið að það líti ekki nákvæmlega eins út og það sem er hér á myndinni en í grunninn eru þau flest keimlík. Rafhlaðan er kirfilega fest við móðurborðið með tveimur málmleiðurum sem eru punktsoðnir fastir við rafhlöðuna á fjórum punktum, tveimur að ofan á mínusnum og tveimur að neðan á plúsnum. 

Skref 5

Þá er komið að erfiðasta hluta aðgerðarinnar sem krefst smá þolinmæði. Taktu dúkahnífinn og stingdu honum undir málmflipann að ofanverðu. Þegar þú kemur að fyrsta punktinum skaltu draga hann varlega fram og til baka þangað til blaðið er búið að saga sig í gegnum punktinn. Þetta getur tekið smá tíma og best er að gera þetta varlega svo málmflipinn skemmist ekki. Gerðu þetta fyrir alla fjóra punktanna á ofan- og neðanverðri rafhlöðunni.

Skref 6

Nú ætti rafhlaðan að vera laus frá móðurborðinu. Ef vel tókst til þá ættu báðir málmfliparnir enn að vera nokkuð heillegir, en það skiptir ekki höfuðmáli hvort þeir eru alveg heilir eða ekki svo lengi sem þeir ná ennþá undir og yfir rafhlöðuna.

Skref 7

Taktu smá rafmagnslímband og dragðu það, með límhliðina upp, undir neðri málmflipann. Reyndu að hafa það eins mikið fyrir miðju og þú getur.

Skref 8

Leggðu nýju rafhlöðuna á milli málmflipana með sama hætti og sú sem var fyrir (plús niður mínus upp). Klemmdu hana þéttingsfast á milli flipanna tveggja og togaðu rafmagnslímbandið yfir frá báðum hliðum með þeim hætti að málmfliparnir séu eins þétt upp við rafhlöðuna beggja megin og þú mögulega getur.

Skref 9

Taktu dúkahnífinn og notaðu óbeitta hluta hans til að pakka límbandinu vel að rafhlöðunni frá öllum mögulegum hliðum. Þetta þéttir málmflipanna betur að rafhlöðunni. 

Skref 10

Lokaðu plastskelinni aftur saman. Þar sem við notuðum stærri CR2032 rafhlöðu en ekki CR2025 rafhlöðu, þá getur verið aðeins erfiðara að loka skelinni aftur en það var að opna hana, en þetta tryggir að plastið heldur betur utan um límbandið og rafhlöðuna og hún því ólíklegri til að missa samband. Skrúfaðu leikinn svo aftur saman og nú ætti hann að geta vistað aftur!

Gangi þér vel!

 - KiddóEldri færsla Nýrri færsla


Skrifaðu athugasemd

Athugið að athugasemdir þurfa samþykki stjórnanda áður þær birtast.