Karfa 0

RETROTHON Til styrktar Barnaspítala Hringsins

Ég er búinn að skrá mig í 3KM góðgerðahlaup í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar Barnaspítala Hringsins. Ég mun samt ekki taka þátt með hefðbundnu móti, þar að segja ég mun ekki hlaupa 3KM, heldur spila í gegnum 3 Klassíska Mega Drive tölvuleiki í einni maraþonsetu. Leikirnir eru að sjálfsögðu Sonic The Hedgehog 1, 2 og 3, og því verður nóg hlaupið í stafrænum skilningi enda er Sonic fráasti blái broddgöltur allra tíma.

Ég mun streyma þessari þolraun á netinu þann 19. ágúst á sama tíma og Reykjavíkurmaraþonið er í gangi. Hvort ég nái að ljúka “hlaupi” á svipuðum tíma og aðrir hlauparar er ekki gott að segja, en ef ég næði að klára leikina á algerum heimsmetstíma tæki maraþonið um 40 mínútur. Ég ætla engu að síður að áætla um tvær klukkustundir á hvern leik enda ekki spilað Sonic leik í gegn síðan árið 1998. Hvar, hvenær og hvernig ég mun gera þetta mun koma í ljós þegar nær dregur, en ég vonast til að geta leyft gestum og gangandi að líta við og fylgjast með ef það er áhugi.

Ég hef ákveðið að safna áheitum fyrir Barnaspítalasjóð Hringsins, enda er góð heilbrigðisþjónusta fyrir börnin okkar eitthvað sem allir ættu að láta sig varða. Ég hef sett markmiðið á 50.000kr þar sem það mun duga fyrir nýrri leikjatölvu fyrir börnin að spila á. Ég ræð auðvitað engu um hvað peningarnir verða nýttir í en finnst sú tala við hæfi :-)

Ég vil hvetja alla til að senda á mig áheit í gegnum góðagerðasíðu Reykjavíkurmaraþonsins, en á meðan maraþoninu stendur munum við hjá Retró Líf einnig draga úr nafngreindum áheitum einhverja skemmtilega retró vinninga!

 

 - Kiddó



Eldri færsla Nýrri færsla


Skrifaðu athugasemd

Athugið að athugasemdir þurfa samþykki stjórnanda áður þær birtast.