Karfa 0

Umhirða og þrif leikja

Tölum aðeins um gamla leiki í plasthylkjum. NES, SNES, Mega Drive, Nintendo 64, Atari 2600, Famicom og fjölmargar aðrar Retró leikjatölvur notast við leiki á kísilborðum sem eru lokuð af inni í plasthylki. Utan á plasthylkinu er svo límdur límmiði með misgóðri myndrænni túlkun á innihaldi leiksins, og neðan úr hylkinu stendur svo hluti af kísilborðinu með málmþynnum sem tengjast móðurborði leikjatölvunnar og gera henni kleyft að lesa upplýsingarnar sem hylkið hefur að geyma. Við ætlum að tala aðeins nánar um þessar málmþynnur en fyrst mál málanna...

EKKI BLÁSA Í LEIKINA ÞÍNA!

Í alvörunni, ekki blása inn í leikinn þinn ef hann nær ekki að tengjast tölvunni í fyrsta skipti sem honum er stungið í samband í langan tíma. Það sem er að koma í veg fyrir að leikurinn birtist á skjánum er lélegt samband milli leiksins og tölvunnar, eða nánar tiltekið; málmþynnanna og tengipinnanna í tölvunni. Það sem orsakar þetta lélega samband er í langflestum tilfellum einfaldlega ryk og skítur sem er auðvelt að þrífa af, og þá virkar leikurinn jafn vel og daginn sem hann var tekinn úr kassanum.

Skítugar málmþynnur með smá vott af tæringu.

Það sem gerist þegar blásið er á leikina er að andardrátturinn myndar raka á málmþynnunum, sem gæti fræðilega séð aukið leiðni á milli leiks og tölvu. Allar líkur eru hins vegar á að þegar leikurinn var tekinn út og blásið á hann hafi örlítill skítur nuddast af honum eftir tengingu við pinnanna í tölvunni og leiðnin bæst nægilega mikið til að hann hafi virkað á ný. Það sem gerist hins vegar þegar raki kemst ítrekað í tæri við málm er að það myndast tæring í málminum, en það getur til lengri tíma eyðilagt leikinn algjörlega.

Hvað er tæring spyrja eflaust einhverjir. Án þess að fara of djúpt í það þá er tæring efnafræðilegt ferli sem orsakar það að ytra lag málma tekur umbreytingu þegar þeir komast í tæri við súrefni, vatn og önnur efni. Græna slikjan utaná silfurborðbúnaði ömmu þinnar er form af tæringu og ryð á járni er líka form af tæringu. Löng saga stutt, þú vilt ekki að leikirnir þínir byrji að tærast.

OK, fjúkk, gott að koma þessu frá... EKKI BLÁSA Á LEIKINA! Ok? Gott mál.

En hvernig er best að þrífa leikina? Google býður upp á allskonar lausnir sem eru margar hverjar góðar, en það eru tvær sem poppa reglulega upp sem ég er ekkert sérstaklega hrifinn af. Það er hreinsun með strokleðri og hreinsun með sandpappír. Strokleðurslausnin getur virkað ágætlega en hún skilur eftir sig mikið af svona gúmmíkurli sem maður vill helst ekki fá inn í leikina. Einnig geta mýkri strokleður myndað hálfgerða gúmmí-himnu á málmþynnurnar sem stoppa alla leiðni, þannig það skiptir miklu máli hvernig strokleður maður ætlar að nota ef sú þrifaleið er notuð á annað borð. Sandpappírsleiðin virkar vel en skilur eftir sig mikið af fínu ryki og ef maður er að nota sandpappír til að nudda þynnurnar á nokkura ára fresti þá segir það sig sjálft að á einhverjum tímapunkti verður ekkert eftir. En ég ætla aðeins að segja ykkur frá minni leið.

Allt sem þú þarft til að þrífa gömlu leikina þína færðu fyrir um 1000kr.

  • Spritt með háu magni vínanda. Ég nota Ísóprópanol frá Gamla Apótekinu því tappinn er svo þægilegur, en það fæst í flestum apótekum.
  • Hellingur af eyrnapinnum. Hvaða tegund sem er virkar en það er betra ef bómullinn á pinnunum er fremur fastur í sér frekar en laus og mjúkur.
  • Brasso koparhreinsir. Þetta er aðeins notað í undantekningatilvikum en er nauðsynlegt ef þynnurnar eru mjög tærðar. Brasso fæst í flestum verslunum.

Aðferðin sem slík er tiltölulega einföld. Bleytið eyrnapinna upp í sótthreinsispritti og nuddið honum fram og aftur eftir málmþynnunum þangað til bómullinn er orðinn grá af skít. Bleytið nýjan pinna og endurtakið þangað til pinninn er hættur að taka á sig lit. Takið þá þurran pinna og strjúkið yfir þynnurnar á ný til að eyða burt öllum raka. Þetta er nóg í 98% tilfella og leikurinn ætti að smella í gang að nýju.

Ef leikurinn er hins vegar enn ekki að virka og þú sérð að þynnurnar eru ennþá frekar máðar, gætir þú þurft að grípa til koparhreinsisins. Ég mæli með því að gera þetta við opinn glugga eða utandyra þar sem lyktin af koparhreinsi er frekar sterk og ertandi. Í grunninn er ferlið það sama og með sprittið. Dýfið eyrnapinna í koparhreinsinn og nuddið málmþynnurnar duglega með eyrnapinnanum. Það ætti að koma einhver slatti af grárri drullu (jafnvel þó svo þú sért þegar búinn að fara vel yfir með sprittinu á undan) í eyrnapinnan. Þú gætir þurft að nota 2-4 blauta eyrnapinnahausa af koparhreinsi áður en gráa drullan fer að minnka að einhverju leyti en þá er takmarkinu yfirleitt náð. Þá er skipt aftur yfir í sótthreinsisprittið og nuddað með eyrnapinna þangað til allur koparhreinsirinn er á bak og burt, og fylgja svo eftir með þurrum eyrnapinna. Leikurinn þinn ætti núna að vera gangfær að nýju!

Það er alltaf gott að leyfa leiknum að „anda“ aðeins áður en honum er smellt í tölvuna eftir hreinsun svo allur raki sé örugglega farinn. Til að koma í veg fyrir frekari skítmyndun er auðvitað gott að geyma leikina í plast- eða pappahulstrum, en þannig varðveitast þeir best.

Ég hef hreinsað hundruðir leikja með þessari aðferð og enn í dag hef ég kannski fundið 3-4 leiki sem hafa ekki sýnt nein viðbrögð eftir þessa meðhöndlun og í framhaldi verið úrskurðaðir látnir. Ef þetta virkar ekki hjá þér þá er mun líklegra að vandamálið sé tengt tölvunni, en það er efni í annað blogg.

Takk fyrir að lesa.


  -  Kiddó



Eldri færsla Nýrri færsla


Skrifaðu athugasemd

Athugið að athugasemdir þurfa samþykki stjórnanda áður þær birtast.