Karfa 0

Takk!

Kæru Retróvinir.

Nú hefur Retró Líf verið í loftinu í tvo mánuði og satt að segja hafa viðbrögðin við litlu vefversluninni okkar komið okkur heilmikið á óvart. Retró Líf átti að vera lítið áhugamál sem við ætluðum að nostra við í góðu tómi til að lyfta aðeins upp áhuganum fyrir gömlum leikjum hér á klakanum, en varð eiginlega um leið eitthvað miklu meira. Strax fyrstu vikuna sáum við fram á að eftirspurnin og áhuginn var töluvert meiri en við höfðum séð fram á, en fyrirspurnir um hinar og þessar tölvur og leiki dundu á okkur. Við höfum sem betur fer náð að uppfylla flest og vonumst til að bjarga rest fyrir horn á nýju ári (Já, fleiri NES tölvur eru á leiðinni).
Hugsjónin okkar er sú að geta boðið fólki að kaupa gamla leiki frá traustum innlendum aðila, þar sem hægt er að ganga að því vísu að varan virkar og útlit og ástand leiksins er samkvæmt lýsingu. Við höfum persónulega brennt okkur margoft í gegnum árin á því að kaupa leiki, leikjatölvur og aðra hluti í gegnum hinar og þessar síður eða verslanir, innlendar og erlendar, en komið heim með köttinn í sekknum. Retró tölvubúnaður er oft á tíðum dýr og fágætur og vonbrigðin því alltaf jafn mikil þegar maður fær eitthvað í hendurnar sem hreinlega virkar ekki, og erfitt eða jafnvel ómögulegt að fá skaðann bætann.

Ójá, við höfum sko sannarlega lent í þessu...

Það er líka óneitanlega skemmtilegra að geta verslað sér einn leik þegar spilagírinn grípur mann og fengið hann sendan heim eftir aðeins 2-3 daga, frekar en að bíða vikum saman eftir sendingu frá útlöndum, þar sem maður hálfpartinn pínir sig til að kaupa í magni til að tollur og sendingarkostnaður sé réttlætanlegri.

Við leggjum því aðeins meira á okkur með því að prufa alla leiki, tölvur, fjarstýringar og annað svo við séum ekki að senda neitt frá okkur sem virkar ekki (þó eðlilegt slit eigi stundum við). Þetta er auðvitað hellings vinna, en við viljum frekar vera aðeins hægari í snúningum og í staðinn bjóða fram góðar vörur og þjónustu.  

Við viljum þakka ykkur öllum sem hafið sýnt okkur stuðning með því að elta okkur á samfélagsmiðlum, skrá ykkur á póstlista, segja vinum frá okkur og að sjálfsögðu með því að versla við okkur. Með ykkar hjálp er Retró Líf komið til að vera :-)


  -  Kiddó



Nýrri færsla


Skrifaðu athugasemd

Athugið að athugasemdir þurfa samþykki stjórnanda áður þær birtast.