Karfa 0

Hvor er betri? PS2 Slim eða PS2 Hlunkurinn?

Ein algengasta spurningin sem ég fæ er hvort ég mæli með PlayStation 2 SlimLine eða PlayStation 2 Phat, eða Hlunknum eins og ég kýs að kalla hann. Einfaldaða svarið er að útgáfurnar tvær eru svo keimlíkar að í rauninni á viðkomandi að velja þá útgáfu sem honum finnst flottari, þar sem í grunninn keyra þær nánast á sama vélbúnaði. Ef við köfum örlítið dýpra þá eru smávægilegar breytur á milli PS2 Hlunksins og PS2 Slim sem skera þær í sundur, en báðar útgáfurnar hafa sína smávægilegu kosti og galla sem ég ætla að útlista hér aðeins neðar. 

Það er engu að síður gott að hafa í huga að þetta er svolítið almenn útlistun, þar sem bæði PS2 Hlunkurinn og PS2 Slim hafa þó nokkrar undirútgáfur. Sony var stöðugt að þróa leikjatölvuna á meðan hún var í dreifingu og því er til að mynda töluverður munur á fyrstu PS2 Hlunkunum (SCPH-10000 línan) og þeirri síðustu (SCPH-50000 línan), og það sama á við um PS2 Slim.

Áður en lengra er haldið er eitt atriði sem ég vil taka út fyrir sviga. Það virðist vera vinsælli skoðun meðal netverja að leiserinn í Hlunknum hafi síðri endingu en leiserinn í PS2 Slim. Ég er ekki sammála þeirri staðhæfingu. Það er staðreynd að fyrstu útgáfur PlayStation 2 Hlunksins voru með óstöðugri leiser, en leiserinn var betrumbættur í síðari útgáfum Hlunksins. Einnig má ekki gleyma því að Hlunkarnir eru allir eldri en Slim útgáfurnar og eru því líklegri til að hafa meiri notkun á bakinu. Það er samt mín reynsla að PS2 Slim tölvur eru ekki síður líklegar til að vera með bilaðan leiser. Ein helsta ástæðan fyrir því tel ég vera að leiserlinsan er reglulega opin fyrir beru lofti og tekur því á sig meira ryk og auðveldara er að rekast í hana og valda rispum eða skekkju. PS2 Slim tölvan er einnig mun léttbyggðari og því er allt hnjask líklegra til að hafa slæm áhrif á innyfli tölvuhússins. Ég ætla því ekki að gera greinarmun á leiserlíftíma í þessari upptalningu, en vil samt koma því á framfæri að internetið er ósammála mér hvað það varðar.

PlayStation 2 Hlunkurinn

Kostir

 • Diskasleðinn þrýstist út úr tölvunni þannig ekki þarf að gera ráð fyrir tómarými fyrir ofan tölvuna til að setja leiki í hana. 
 • Toppurinn er flatur og því er hægt að setja leiki, leikjatölvu eða önnur margmiðlunartæki ofaná hana.
 • Styður PS2 harða diskinn sem er nauðsynlegur til að spila vissa leiki og gefur fleiri skemmtilega möguleika ef maður vill modda tölvuna.
 • Er líklegri en Slim útgáfan til að spila PS1 leiki og PS2 leiki á CD án vandræða.*

Ókostir

 • Diskurinn liggur laus í diskasleðanum og getur því dottið úr sleðanum ef tölvan er á hlið eða klemst á milli ef sleðinn ákveður að fara inn af sjálfdáðum.
 • Mótorinn sem knýr diskasleðan verður lélegur með tíð og tíma og getur erfiðað við að þrýsta sleðanum alla leið út. Einnig getur hann alveg dáið og þá er vesen að koma leikjum í tölvuna.
 • Er stærri um sig og tekur því meira pláss í sjónvarpsskenknum.

PlayStation 2 SlimLine

Kostir

 • Er minni og léttari og tekur því minna pláss og auðveldara er að ferðast með hana.
 • Hefur opnanlegan hlera að ofanverðu til að setja leikina ofaní og því verður aldrei sama vesen á henni og með diskasleðann á Hlunknum.
 • Er með innbyggt Ethernet Port og sumar útgáfur eru með innbyggt módem.
 • Kæliviftan er yfirleitt hljóðlátari en í Hlunknum.
 • Leikirnir smella fastir inní tölvuna og detta því ekki úr henni ef hún stendur á hlið.

Ókostir. 

 • Getur ekki spilað alla PS2 leiki sökum þess að hún styður ekki PS2 harða diskinn.
 • Er líklegri til að hafna því að spila PS1 leiki og PS2 leiki á CD.*
 • Aflgjafinn er utanáliggjandi í flestum útgáfum sem tekur meira snúrupláss.
 • Opnanlegi hlerinn að ofanverðu kemur í veg fyrir að hægt sé að geyma hluti ofaná henni og því þarf að gera ráð fyrir tómarúmi að ofanverðu til að geta opnað tölvuna.
 • Er líklegri til að rispa diska.
 • Er ólíklegri til að styðja aukahluti frá þriðja aðila.

Vonandi hjálpar þetta þér við að taka upplýsta ákvörðun um hvor týpan hentar þér betur. Að öllu rugli slepptu skaltu samt bara velja þér þá útgáfu sem þér finnst flottari og einbeita þér að því að spila skemmtilega leiki :-)

 

 - Kiddó

 

* Byggt á minni persónulegu reynslu. Finn ekki neinar heimildir á netinu til að styðja þetta.


Eldri færsla Nýrri færsla


Skrifaðu athugasemd

Athugið að athugasemdir þurfa samþykki stjórnanda áður þær birtast.